Styttist í að Gjögur og Vísir fái ný skip

  • Fréttir
  • 27. ágúst 2019
Styttist í að Gjögur og Vísir fái ný skip

Útgerðarfyrirtækin Vísir hf og Gjögur hf eru nú með skip í smíðum erlendis sem væntanleg eru til Grindavíkur á næstunni. Um er að ræða endurnýjun eldri skipa sem verið er að skipta út. Þetta eru skipin Páll Jónsson GK 7 í eigu Vísis og ísfisktogarnir Vörður ÞH 44 og Áskell ÞH 48 í eigu Gjögurs. Meðfylgjandi myndir birti Jón Steinar Sæmundsson á Facebook síðu sinni Bátar og bryggjubrölt en þar kemur fram að myndirnar af Áskeli og Verði voru teknar  í Brattavogi í Noregi af Ragnari Pálssyni stýrimanni hjá Gjörgri.

Töluverð endurnýjun er í fiskiskipaflota landsins en hér má sjá tölvuteikningu af skipunum sem í smíðum eru fyrir Gjögur. Skipin verða um 28,95 metrar á lengd og 12 metrar á breidd.  Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum.  Ný kynslóð rafmagnsspila verður í skipunum frá Seaonics. Íbúðir fyrir 13 manns verða í þeim og munu taka um 80 tonn af fiski í lest eða um 244 kör, 460 lítra.

Myndin af Páli Jónssyni var tekin af Kjartani Viðarssyni útgerðarstjóra hjá Vísi hf, við höfn í Gdansk í Póllandi. Páll Jónsson verður 45 metra langt skip og 10,5 metrar að breidd, þrjú þilför verða á því og verður það búið Catepillar aðalvél. Skipið tekur um 420 kör í lest og verða fjórtán eins manns klefar í skipinu.

Staðan á skipunum er sú að verið er að leggja lokahönd á smíði Áskels og Varðar en Áskell er þó eitthvað aðeins skemmra á veg kominn. Smíði Páls Jónssonar er líka á lokametrunum og er hann væntanlegur til landsins um mánaðarmótin september/október. 

Myndir: Kjartan Viðarsson og Ragnar Aðalsteinn Pálsson af síðunni Bátar og bryggjöbrölt. 

 

 

 

Deildu þessari frétt