Heim í heiðardalinn!

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Kvennalið Grindavíkur sem leikur á ný í efstu deild kvenna í haust safnar nú liði fyrir átökin.  Tvíburasysturnar Harpa Rakel og Helga Rut Hallgrímsdætur eru komnar heim eftir ársdvöl hjá Njarðvík annars vegar og Keflavík hins vegar.

 

„Þetta var mjög auðveld ákvörðun. Ég er svo mikill Grindvíkingur að ég verð að vera í Grindavík. Ég var búin að sjá það,” sagði Helga Rut í samtali við Fréttablaðið í gær.

Grindavík missti flesta liðsmenn sína fyrir síðustu leiktíð er ljóst var að liðið myndi ekki tefla fram liði í efstu deild. Kornungt lið félagsins vann sigur í næstefstu deild og tryggði sér sæti á meðal þeirra bestu á ný.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari liðsins, staðfesti að liðið hefði rætt við landsliðskonurnar Petrúnellu Skúladóttur og Ólöfu Helgu Pálsdóttur um að snúa aftur til Grindavíkur. Þær stöllur urðu, líkt og Harpa Rakel, Íslands- og bikarmeistarar með Njarðvík á síðustu leiktíð.